Einu sinni voru karl og kerling í koti. Þau áttu dóttur, sem hét Gýpa og þótti hún matfrek í meira lagi. Kú áttu þau, sem hét Kreppilhyrna. Einu sinn áður en Gýpa fór að smala, át hún úr askinum sínum og askinn með, karl og kerlingu, kúna Kreppilhyrnu og kotið með.Svo hélt Gýpa af stað.
Þegar hún hafði gengið um stund, mætti hún tófu. Gýpa spyr hana að heiti. Hún segist heita Refur rennandi. Refur spyr Gýpu að heiti. Hún segir til nafn síns. “Hvað áztu í morgun, Gýpa mín?“ spyr Refur.„Ég át úr askinum mínum og askinn með, karl og kerlingu, kúna Kreppilhyrnu og kotið með, og eins mun ég gera við þig, Refur rennandi,“ sagði Gýpa, og svo gleypti hún refinn.
Gýpa gékk nú lengi lengi, þangað til hún mætti bjarndýri. Hún spurði það að heiti. Það kvaðst heita Björn betlandi. Björn spurði Gýpu að heiti. Hún sagði sem var. „Hvað áztu í morgun, Gýpa mín?“ spyr björninn. „Ég át úr askinum mínum og askinn með, karl og kerlingu, kúna Kreppilhyrnu og kotið með, Ref rennandi og eins mun ég gera við þig, Björn betlandi,“ sagði Gýpa, og svo gleypti hún björninn.
Skömmu seinna kom Gýpa að sjó og hitti þar menn á skipi. Þeir spurðu hana heiti. Hún sagði af hið sannasta. „Hvað áztu í morgun, Gýpa mín?“ spurðu þeir. „Ég át úr askinum mínum og askinn með, karl og kerlingu, kúna Kreppilhyrnu og kotið með, Ref rennandi, Björn betlandi og eins mun ég gera við ykkur“, sagði Gýpa, og svo gleypti hún bæði mennina og skipið.
Nú var Gýpu nóg boðið, því að skömmu seinna sprakk hún, og kom kotið og skipið alveg ómelt innan úr henni, en karl og kerling, kýrin Kreppilhyrna, Refur rennandi og Björn betlandi voru lifandi og vel á sig komin. Gýpa var saumuð saman og lifði hún bæði vel og lengi eftir þetta.