Fréttir frá Fálkakletti

Fréttir 16. nóvember

Ritað 16.11.2012.

Vikan er búin að vera fín hjá okkur. í dag fengum við tónleikhúsið Dúó Stemmu til okkar og þau sungu og sögðu sögu með hljóðfærum. Allir skemmtu sér mjög vel og tóku undir í söngnum. síðan komu karkkar úr 4. bekk í Hamraskóla og lásu fyrir okkur. það eru myndir frá því inn á heimasíðunni.

Við erum búin að vera að syngja mikið og börnin eru ótrúlega dugleg að læra texra og nýjasta lagið sem við erum að syngja núna er Konan sem kyndir ofninn minn og Á íslensku má alltaf finna svar.

Í vikunni gerðu flestir vinaarmbönd úr perlum og eftir helgi ætlum við að setja þau öll í skál og hvert og eitt fær að draga sér armband frá vini sínum. við erum mikið búin að vera að tala um vini og vináttu og lesa bækur sem tengist því.

Við erum alltaf að æfa okkur að nota inniröddina inni og útiröddina úti og síðan erum við að æfa okkur í að ganga inni og þá sérstaklega ganga inn í hreiður og setjast beint niður á sinn stað.

Við viljum minna foreldra á að yfirfara boxin sem aukafötin eru geymd í og bæta í þau sem vantar. Einnig þurfa börnin nú að hafa hlý föt fyrir útiveruna og góða vettlinga.

hér fyrir neðan er texti af lögunum sem við höfum verið að æfa.

Fréttir frá Fálkakletti

Ritað 08.05.2012.

Hér koma nokkrar fréttir frá okkur á Fálkakletti.

Opna húsið sem var 25. apríl gekk vel og gaman að sjá hvað margir komu í heimsókn til að sjá hvað börnin eru búin að vera að vinna í vetur. Við enduðum verkefnið um Gilitrutt með því að þau sögðu okkur söguna  úm gilitrutt og var hún skráð niður. Einnig sáum við leikna mynd um Gilitrutt sem var mjög skemmtileg. Allir gerðu fínan vef sem við erum mjög ánægð með. í lok maí fara þau síðan heim með listaverkin sín.

Það er mikil útivera hjá okkur núna þegar veðrið er orðið svona gott og eru allir orðnir mjög duglegir að klæða sig í útifötin og það er orðið léttara að þurfa bara að fara í úlpu, húfu og skó. Það fer að koma sá tími að börnin þurfa sólarvörn og þá viljum við biðja foreldra að koma með sólarvörn fyrir börnin sín í leikskólann og vera búin að segja sólarvörn á þau á morgnanna og við setjum síðan á  þau  eftir hádegi. Þá viljum við minna foreldra að hafa léttari fatnað með í leikskólann, t.d. flíspeysu, strigaskó og buff.

Í  síðustu viku fóru börn fædd 2007 í ferð í Þjóðminjasafnið og gekk sú ferð mjög vel og þau voru mjög áhugasöm og hlustuðu vel á leiðsögumanninn sem sagði okkur ýmislegt um það sem var  til í gamla daga. það verða settar inn myndir í sameiginlega möppu frá þessari ferð.

Í morgun fóru tveir elstu árgangar í sögubílinn Æringja og hlustuðu á sögu hjá sögukonunni.

Eygló kemur í vinnu á morgun (9. maí) og þá fer Kristjana á Arnarklett og þökkum við henni fyrir samveruna þessa mánuði.  Eygló hefur sent okkur tvö bréf meðan hún var í Englandi og sagt okkur fréttir og það var gaman að fylgjast með henni og það bíða allir spenntir að fá hana til baka.

Síðustu vikur höfum við verið að æfa okkur í að ganga fallega inn í hreiður, ekki hlaupa og vera með læti og erum við ennþá að æfa okkur í því. Einnig höfum við verið að ræða um kurteisi og virðingu. Það að við þurfum að vera kurteis við önnur börn, kennara, foreldra og alla og bera virðingu fyrir öðrum, það mega allir hafa sína skoðun þó að við séum ekki alltaf sammála.

kveðja frá öllum á Fálkakletti.

Fréttir frá Fálkakletti mars ´12

Ritað 15.03.2012.

Það var mikið að gera hjá okkur í dag, en þá vorum við að baka Gilitruttbollur. Allir fengu að gera tvær bollur, eina sem þau ætla að borða í kaffitímanum og svo taka þau hina með sér heim. Það eru myndir frá bakstrinum inn á deild.

Allir hópar eru búnir að fara í frjálsan leik í Glym þessa viku og þá er mest spennandi að leika sér með púðana. Við höfum líka verið mjög dugleg að vefa þessa vikuna og eru margir búnir með sitt vefspjald.

Lag vikunnar hjá okkur er lagið um Gilitrutt og það er hér neðst á síðunni. Við erum mikið að vinna með Giltruttsöguna, börnin hafa verið að endursegja söguna og kennarar skrá það niður. Síðan ætlum við að myndskreyta söguna og sýna hana á opnu húsi 25. apríl.

Í næstu vikur verða foreldraviðtöl hjá Fálkakletti og verða tímasetningar sendar heim í lok vikunnar.

Ó Gilitrutt, ó Gilitrutt
svo ofboðslega ljót
ó Gilitrutt, ó Gilitrutt
með allt of stóran fót.
Ó Gilitrutt, ó gilitrutt
svo ósköp loðin öll
ó gilitrutt ó Gilitrutt
þú ert nú algjört tröll.Gilitrutt, Gilitrutt, Gilitrutt hey x4

Fréttir frá Fálkakletti

Ritað 13.02.2012.

Hérna koma nokkrar fréttir frá okkur á Fálkakletti.Það er búið að vera nóg að gera hjá okkur síðustu vikurnar. Í síðustu viku var blá vika og mjög margir mættu í bláum fötum á föstudeginum. Í vinastund í Glym sungu börnin á Fálkakletti tvö lög fyrir hin börnin, en það vöru lögin; Tönnin mín og Að slá er algjörlega bannað. Í hádeginu á föstudeginum fengu allir blátt vatn með matnum.

Við spurðum börnin hvað væri blátt á litinn og hangir blað með þeim svörum fyrir framan deildina.

Vikan 30. janúar til 3. febrúar var tannverndarvika og þá lituðum við myndir tengdar því, ræddum um tannvernd og síðan fengum við að horfa á bíómynd um Karíus og Baktus.

Við erum byrjuð í verkefninu um Gilitrutt og hefur sagan verið lesin mjög oft fyrir þau. Einnig höfum við lesið aðrar tröllasögur. Mikið hefur verið talað um söguna. t.d. um kindur, ull, tröll, hús og húsbúnað í gamla dag og fleira tengt sögunni um Gilitrutt.

Flest börnin eru byrjuð að vefa. Allir eiga vefspjald sem þau geta vefað í. Síðan er kominn vefstóll í Glym sem allir fá að vefa í.

Það eru komnar stórar myndir af Gilitrutt upp á vegg hjá okkur sem börnin teiknuðu.

Eins og flestir vita þá er Eygló í fríi og kemur aftur í byrjun maí en við vorum svo heppin að fá Kristjönu aftur til okkar. En hún vann hjá okkur síðasta sumar og fram í október.

Á föstudaginn er mömmum síðan boðið í morgunmat í tilefni af konudeginum. Morgunmaturinn er klukkan 8:15 – 8:50.

Fréttir frá Fálkakletti.

Ritað 15.12.2011.

Í desember erum við búin að hafa góða daga.

Við fórum öll í húsdýragarðinn með börnum úr 6 bekk í Hamraskóla. Tveir elstu árgangar fóru í kirkjuferð, við fengum leiksýningu til okkar um strákinn sem týndi jólunum. Við skreyttum piparkökur sem við borðum á jólaballinu. Við erum búin að gera jólalegt hjá okkur, mála jólasveina, jólatré og fleira sem við förum með heim eftir jólaballið sem verður föstudaginn 16. desember.

Það er búið að vera mjög skemmtilegt úti í snjónum að moka og renna sér á snjóþotu. Svo gáfum við fuglunum korn einn daginn sem þeir borðuðu með bestu lyst.

Í Janúar byrjum við síðan aftur með hefðbundnar vinnustundir og þá munum við taka fyrir þjóðsöguna um Gilitrutt.

Gleðileg jól  -  Kveðja frá Fálkakletti